Skaftfellingur

Vorið 2017 var sýningin ,,Við hafnlausa strönd" sem einblýnir á skipið Skaftfelling opnuð almenningi með pompi og prakt. Skaftfellingur á sér merka sögu. Það var byggt árið 1918 og keypt af Skaftfellingsfélaginu, í þeim tilgangi að flytja fólk og vörur á milli byggða á Suðurströndinni. Reglulegar siglingar voru á milli Reykjavíkur, Vestmannaeyja og Víkur og jafnvel austur í Öræfi.

Mesta frægðarverk áhafnar skipsins var björgun þýskra kafbátsmanna í ágúst 1942. Þá komst Skaftfellingur einnig undan þýskum kafbáti sem talinn var hafa skotið að skipinu nokkrum vikum eftir björgun áhafnar kafbátsins.

Eftir glæsta sjótíð var Skaftfellingur dreginn í slipp í Vestmannaeyjum. Þar stóð hann í þrjátíu ár allt þar til Sigrún Jónsdóttir, kirkjulistakona úr Vík, keypti skipið og lét flytja það heim til Víkur. Sigrúnu var Skaftfellingur mjög hugleikinn og nefndi hún hann oft Heillaskipið, Vorboðann eða Elskhugann.

Komið og sjáið Skaftfelling, snertið á honum og finnið af honum sjávarilminn. Á sýningunni er einnig sýnd stuttmynd um sjósókn og samgöngur í Vestur Skaftafellssýslu ásamt hluta af sýningunni ,,Gott strand eða vont?" sem var upphaflega sett upp í Brydebúð árið 2005. Þar er m.a. að sjá yfirlitskort yfir 112 skipaströnd í V-Skaftafellssýslu.

Opið alla daga samhliða opnun upplýsingamiðstöðvarinnar í Brydebúð.

© 2018 Kötlusetur