top of page

HAFNLEYSA

Sjóminjasafnið Hafnleysa segir sögu sjósóknar í Vík, sem er eina sjávarþorp landsins þar sem aldrei hefur verið höfn.

Skipakirkjugarður Evrópu

Sýningin hefst á sögu skipsstranda, en vitað er um hundrað og tólf skipsströnd sem urðu hér við strendur árin 1898 til 1982. Við strendur Vestur-Skaftafellsýslu liggja líklega hundruð skipa grafin og hefur strandlengjan löngum verið kölluð skipakirkjugarður Evrópu.

 

Verslun og útræði í Vík

Stuttlega er farið yfir upphaf verslunar í Vík og til sýnis eru verslunarinnréttingar úr verslun Halldórs Jónssonar kaupmanns ásamt ýmsum munum frá fyrri hluta síðustu aldar. Þá geta gestir skoðað líkön af hinum einkennandi sandabátum sem notaðir voru til veiða og uppskipunar við sendnar strendur Suðurlandsins. Börn geta klætt sig upp í sjóklæði (stílfærð með nútíma textílefnum) og sett sig í hlutverk sjómanna fyrri alda.

 

Skaftfellingur VE33

Það fer ekki fram hjá neinum sem kíkir inn að aðal djásn safnsins er hið rúmlega 100 ára gamla fraktskip Skaftfellingur. Skipið á glæsta og forvitnilega sögu sem rakin er á sýningunni. Hér gefur einnig að líta kafla úr heimildamyndinni í Jöklanna Skjóli frá miðri síðustu öld þar sem Skaftfellingur kemur við sögu; ásamt upptökum af hinstu heimför skipsins árið 2001. Krakkar geta spreytt sig á því hvað hinir ólíku hlutar skipsins heita; skoðað vélarhluta skipsins og æft sig í að búa til pappírsbáta af ýmsum gerðum. Þau yngstu geta klætt sig upp í búninga og ímyndað sér hvernig var að vera sjómaður fyrir hundrað árum.

bottom of page