Katla og Mýrdalsjökull
Við Íslendingar eigum dýrmætan fjársjóð, náttúru landsins. Hvert sem við förum, um landsins fjöll og firnindi getum við séð einstæðar náttúruperlur. Á góðviðrisdegi þegar ekið er meðfram suðurströnd Íslands blasir við okkur fegurð landsins í sinni tærustu mynd. Glæsilegir rísa jöklarnir upp frá ströndinni, draumar skíða- og útivistarmannsins. En ekki er allt sem sýnist og á bak við fegurðina leynist eitur ormsins. Undir ísnum kraumar eldur. Ógn sem íbúar landsins hafa þurft að búa við og laga líf sitt að í gegnum aldirnar. Ógn sem tekið hefur líf sumra og eyðilagt afkomu annarra en enginn fær ráðið við eldinn sem kraumar undir ísnum, hans ógurlega afl og eyðileggingarmátt.
Katla hefur lengi vel verið aðalhlutverk setursins eins og nafnið gefur til kynna. Katla er megineldstöð með öskju, hulin jökli. Einnig er fylgst gaumgæfilega vel með henni á Veðurstofu Íslands en settir hafa verið jarðskjálftamælar um allan jökull til að fylgjast með hegun hennar.
Kötlugos eru þeytigos og þeim getur fylgt mikið gjóskufall og gífurleg jökulhlaup. Gosmökkur getur orðið allt að kílómetra hár, það er hins vegar háð vindátt, hvert og hversu langt gjóskan berst. Í gegnum skörðin milli fjallanna falla skriðjöklar eins og Kötlujökull og Sólheimajökull. Katla er talin vera miðja í um 80 kílómetra löngu eldstöðvakerfi, hóflaga, sem nær frá Eldgjá að Kötlu og eru Vestmannaeyjar jafnvel taldar tengjast kerfinu.
Það hættulegasta við Kötlugosin eru jökulhlaupin, sem verða, þegar jökullinn bráðnar neðan frá við gos. Vatn safnast fyrir undir jöklinum uns vatnsmagnið er orðið nægilega mikið. Þá lyftist jökullinn upp og vatnið brýst fram. Gífurlegur vatnsflaumur rífur með sér jaka allt að 200 metra langa og 18 m háa.
Það sem gerir Kötluhlaup nokkuð sérstök og greinir þau frá öðrum jökulhlaupum er að þau standa yfirleitt mjög stutt og hraði þeirra og vatnsmagn getur orðið gríðarlega mikið. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á landlagi jökulbotnsins sem gefa vísindamönnum mynd af legu öskjunnar og af vatnasvæðum Mýrdalsjökuls. Út frá skiptingu vatnasvæða öskjunnar, landslagi jökulbotnsins og eldvirkni, hefur verið reiknað út að langmestar líkur eru á því að hlaup falli niður á Mýrdalssand, 10% líkur á að hlaup falli í Markarfljótsaura, að öllum líkindum frá Entujökli, og um 12% líkur á að hlaupið falli niður á Sólheima- og Skógasand.
Af þeim 17 hlaupum sem komið hafa frá landnámsöld virðast 15 hafa fallið niður á Mýrdalssand og tvö til Sólheima- og Skógasands. Eitt hlaup fór fyrir um 1600 árum niður Markarfljótsaura. Ferðamenn á leið um Emstrur sjá greinileg ummerki eftir hlaupið því að leiðin liggur í gegnum Tröllagjá sem hlaupið hefur myndað með sínum gríðarlega krafti á örskömmum tíma.
Kötlugos á sögulegum tíma, frá landnámi, eru um það bil 20 talsins. Ekki eru áreiðanlegar heimildir til um öll gosin svo erfitt er að segja nákvæmlega til um fjölda þeirra og gerð. Upplýsingar um gos í Kötlu eru byggðar á ýmsum annálagreinum og öðrum rituðum heimildum en aðallega er stuðst við rannsóknir á gjóskulögum.
Tíminn sem líður milli Kötlugosa er mislangur, stysti tíminn sem hefur liðið er um 13 ár, meðan sá lengsti er um 100 ár. Gosin hafa varað frá hálfum mánuði upp í 5 mánuði og öll hafist á svipuðum árstíma.
Hætta af völdum Kötlugosa er fyrst og fremst tengd hlaupunum þó svo að gjóskan geti einnig haft mjög slæmar afleiðingar fyrir byggð. En sökum þess hversu tíð gos í Kötlu eru hafa nýjar kynslóðir lært af reynslunni og byggt á öruggari stöðum, þar sem ekki hefa áður fallið hlaup. Þess vegna hafa í raun mun færri bæir eyðst af völdum Kötluhlaupa í gegnum tíðina en ætla mætti út frá stærð þeirra og hraða. Mun fleiri bæir hafa farið í eyði af völdum gjóskufallsins, hús hrunið og land spillst. Engar tölur eru til um hversu margir hafi látist í Kötlugosum, sjálfsagt eru þeir margir en þó mun færri en í Öræfajökulsgosum sem hafa aðeins verið tvö á sögulegum tíma.
Séra Jón Steingrímsson skrifaði um Kötlugosið 1660 að gjóskufall hefði ekki verið mikið og skemmdir af völdum þess litlar, en aftur á móti var hlaupið mikið. Fjórar jarðir spilltust í aðalhlaupinu og tók það kirkjuna að Höfðabrekku og bæinn daginn eftir. Eftir það lagðist byggð alveg niður á sandinum og meira en öld eftir hlaupið skrifaði Jón, " þar verður aldrei framar grasland eða byggð til veraldar enda" .
Árið 1721 varð eitt mesta gjóskugos Kötlu og einnig gífurlegt jökulhlaup. Jökulhlaupið kom út úr Kötlugjá og rann með svo miklum krafti til sjávar að mikil flóðbylgja myndaðist og olli hún tjóni í Vestmannaeyjum. Flóðbylgjan tók einnig bæ á Hjörleifshöfða og eyddi gróðurlendi þar en hversu furðulegt sem það kann að virðast varð manntjón ekkert.
Í dag stafar íbúum í nágrenni Kötlu ekki mikil hætta af gosi í henni. Reynslan hefur kennt þeim að byggja á öruggum stöðum og einnig hefur byggð dregist saman á þessu svæði. Reyndar hefur aldrei, eftir að land byggðist, fallið hlaup niður Markarfljótsaura en ef svo yrði mætti líklega reikna með skemmdum, bæði á bæjum og gróðri, meðal annars í Þórsmörk og Fljótshlíð.
Áður en að Kötlugos hefjast koma miklar jarðskálftahrinur þegar kvikan er að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Því eru jarðskálftamælingar afar mikilvægar og mögulegt ætti að vera að segja fyrir um eldgos með að minnsta kosti 4-6 klukkustunda fyrirvara. Með því skapast tími til að gera viðeigandi varúðarráðstafanir og hafa Almannavarnir ríkisins skipulagt neyðaráætlun sem meðal annars tekur til brottflutnings íbúa af hættusvæðum. Því er lítil ástæða fyrir íbúa í nágrenni Kötlu að óttast um líf sitt ef til goss kemur, en mikilvægt er að hinn almenni borgari þekki hlutverk sitt í neyðaráætlunum Almannavarna og hvetjum við alla, jafnt íbúa í nágrenni Kötlu sem og annars staðar að kynna sér þær.
Oft er sagt að öllu illu fylgi eitthvað gott og á það einnig við um gos í Kötlu. Mikil landeyðing hefur átt sér stað víða við Suðurströndina eins og við Vík í Mýrdal. Þar mun sjór brjóta niður byggingar í fyrirsjáanlegri framtíð ef ekki kemur til goss í Kötlu með tilheyrandi framburði sem stækka myndi strandlengjuna.
Í ár eru 100 ár liðin frá seinasta Kötlugosi og oft er spurt hvort Kötlugoss sé ekki senn að vænta, en því verður látið ósvarað hér. Náttúran sjálf er óútreiknanleg en eitt er víst að með hverju árinu sem líður fækkar um eitt ár þar til næst "bryddir á Barða"