top of page
  • Harpa Elín

Einvígi aldarinnar 50 ára!


Kötlusetur fagnaði 50 ára afmæli einvígisins milli Boris Spassky og Bobby Fischer þann 9. júlí síðastliðinn með opnun skáksýningar tileinkaða einvíginu og hraðskákmóti í Skaftellingsskemmu. Hönnuður sýningarinnar er katalónski blaðamaðurinn Albert Cañagueral, ásamt teymi Kötluseturs. Sýningin er opin alla daga frá 10 - 17 til 5. september og eru allir hjartanlega velkomnir!


Heimsbyggðin heldur niðri í sér andanum og horfir norður á bóginn! Hvað mun gerast? Mætir Fisher? Hvaða hljóð eru í Laugardagshöll? Hvernig fer þetta? Í miðju köldu stríði stórveldanna háðu fulltrúar þeirra, bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer og sovéski heimsmeistarinn Boris Spassky, einstaka orustu og Reykjavík var komin á kortið! Einvígið og allt í kringum það er kyngimagnað ævintýri og allir sem það upplifðu muna vel eftir þessu sumri 1972.

Albert Cañagueral var ungur námsmaður að taka sín fyrstu skref í blaðamennsku þegar einvígið fór fram. Ævintýrin höfðu dregið hann alla leið á Hnífsdal að vinna í fiski og þar var hann

þegar spænskir fjölmiðlar báðu hann um að vera þeirra augu og eyru á staðnum. Albert gerði það og meira til, og nú 50 árum síðar rifjar hann upp í sýningunni í Kötlusetri einvígið, en ekki síst upplifunina af því að vera viðstaddur þennan merka viðburð.


Mikil hátíðarstemning var við opnun sýningarinnar. Guðmundur G. Þórarinsson, þáverandi formaður Skáksambands Íslands og framkvæmdarstjóri einvígisins, ávarpaði gesti og gaf skemmtilega innsýn í hvernig það kom til að Ísland var valið sem einvígisstaðurinn. Gríska þjóðlagadúóið Kanarya tók nokkur lög og afhjúpuð var brjóstmynd af Bobby Fisher eftir ungverska listamanninn Zoltán Barát. Góðar veitingar voru í boði, og bar þar einna hæst glæsilega skáktertu sem Kolbrún Hjörleifsdóttir og Svavar Guðmundsson gáfu í tilefni opnunarinnar og frábæra tapasrétti Javier Vela.


Það er Kötlusetri sannur heiður að fá að hýsa sýninguna og minnast þessa merka viðburðar. Skáksamband Íslands og allir þeir sem lögðu hönd á plóg til að ná einvíginu til Íslands og halda það með glæsibrag unnu saman ótrúlegt þrekvirki. Og það er það sem við höfum fundið hér, skákin og skákáhuginn sameinar og erum við mjög þakklát öllu því fjölmarga og frábæra fólki sem við unnum með í tengslum við sýninguna og skákmótið! Það skemmtilegast við svona verkefni er þegar við styrkjum samfélagið okkar og búum til tengingar og það gerðist svo sannarlega hér!


Fyrsta hraðskákmót Kötluseturs og Skákskóla Íslands:

Davíð Kjartansson fyrsti Kötlumeistarinn í hraðskák!

Í tilefni opnunarinnar var efnt til fyrsta hraðskákmóts Kötluseturs og var það gert í mjög góðri samvinnu við Skákskóla Íslands. Mótið var haldið í Skaftfellingsskemmu þar sem heillaskipið Skaftfellingur bauð þátttakendur velkomna og hélt Helgi Ólafsson stórskákmeistari með miklum myndarskap utan um mótið. Alls tefldu 24 þáttakendur sem Helgi skipti í 3 riðla. Tveir efstu í hverjum riðli fóru í úrslit og eftir bráðabana við Gergely Nemeth stóð Davíð Kjartansson uppi sem fyrsti Kötlumeistarinn í hraðskák! Einnig var keppt í barna og unglingaflokki og voru úrslitin eftirfarandi:


Fullorðinsflokkur:

1. sæti og fyrsti Kötlumeistarinn í hraðskák: Davíð Kjartansson

2. sæti: Gergely Nemeth

3. sæti: Jóhann H. Ragnarsson

Unglingar:

1. Sæþór Ingi Sæmundsson

2. Stephanie Ósk Ingvarsdóttir & Sigurgeir Máni Jóhannsson

3. Alexander Dagur Sigurðsson

Barnaflokkur:

1. Mikael Ingvarsson

2. Þorkell Skorri Jóhannsson & Gréta Einarsdóttir

3. Daníel Ágúst Haraldsson, sem einnig var yngsti keppandinn fæddur 2015.

Sæþór Ingi Sæmundsson vann unglingaflokk og var einnig meðal 6 efstu á mótinu. Mikill áhugi var í Mýrdalshreppi fyrir mótinu og studdu fyrirtæki á svæðinu vel við það með glæsilegum vinningum. Mótshaldarar eru mjög þakklátir fyrir góða þátttöku, stuðning við mótið og frábæra stemningu og vonast til að mótið verið að árlegum viðburði










132 views0 comments
bottom of page