top of page
  • Vala Hauksdóttir

DYRHÓLAÓS: Jarðvætti í Mýrdalshreppi

Dyrhólaós er mikið vatnsflæmi í Mýrdal á milli Dyrhólahverfis og Reynishverfis. Gott landbúnaðarland er þar allt um kring og nokkur veiði er í ósnum. Mikil náttúrufegurð einkennir svæðið umhverfis ósinn. Dyrhólaey og Reynisfjara afmarka ósinn að sunnan- og vestanverðu en Reynisfjall stendur við austurbrún hans.

Dyrhólaós er sjávarlón inn af Dyrhólaey og Reynisfjöru. Mynd: Þórir Kjartansson

Jarðfræðin

Dyrhólaós er í raun sjávarlón fremur en árós. Orðið ós á almennt við um svæði þar sem ár mæta hafinu í nokkru vatnsrennsli. Sjávarlón eru hins vegar líkari stöðuvötnum sem aðgreinast frá sjónum með sandgarði eða öðrum jarðvegi. Sjávarlónin innan Kötlu UNESCO jarðvangs eru þrjú en þau eiga það sameiginlegt að vera kölluð ósar af heimafólki: Dyrhólaós í Mýrdal, Holtsós undir Steinafjalli og Skipagerðisós í Landeyjum. Hér er einnig sú málvenja að tala um að ,,ósinn sé uppi“ þegar sandrif lokar útfallinu á lóninu og ,,ósinn sé úti“ þegar útfallið er opið svo vatn streymir á milli lóns og sjávar.

Þegar ,,ósinn er úti" rennur vatn um útfallið á milli lóns og sjávar. Mynd: Þórir Kjartansson

Lífríkið

Dyrhólaós býr yfir einu sjávarleirum á Suðurlandi og þar þrífast fjölbreyttir hryggleysingjar sem viðhalda ríku fuglalífi allan ársins hring. Farfuglar birgja sig hér upp af fæðuforða á ferð sinni yfir Atlantshafið og mófuglar sækja í saltar leirurnar þegar jörðin frýs.

Æðarungi bíður á meðan foreldrarnir sækja æti á leirurnar. Mynd: Birgir Örn Sigurðsson.

Þegar ósinn er úti gengur sjóbirtingur og sjóbleikja í Dyrhólaós. Þar má einnig finna flatfiskana flundru og sandkola ásamt ýmsum skeldýrum. Bæði Land- og útselir halda til í hafinu úti fyrir Dyrhólaósi. Sjávarleirur eru kolefnisbindandi líkt og annað votlendi og er því ljóst að Dyrhólaós er mikilvægur á heimsvísu fyrir loftslag jafnt sem dýralíf.


Fólkið

Hér byggðust fyrstu bæir stuttu eftir landnám enda er hér gott landbúnaðarland, fiskveiði og fjölbreyttar nytjar af villtum fuglum.


Róið var til sjávar á árabátum frá Dyrhólaey fram að miðri 20.öld og þegar vélbátar komu til sögunnar voru uppi háleitar hugmyndir um hafnargerð við ósinn. Ef af þeim framkvæmdum hefði orðið væri hér hugsanlega stór hafnarbær en á móti kemur að mikilvægt lífríki hefði spillst. Í dag eru göng um Reynisfjall komin á samgönguáætlun og verður þá þjóðvegur 1 að líkindum færður nær norðurbrún óssins á kafla og þaðan austur undir Reynisfjall.

Bæjarhúsin að Görðum. Dyrhólaós í baksýn. Mynd: úr safni Kötluseturs

Ferðamenn

Dyrhólaós er sérstaklega áhugaverður viðkomustaður fyrir áhugafólk um fugla eða ljósmyndun. Tilvalið er að skoða Dyrhólaey og Reynisfjöru í sömu ferð.


Byrjið á heimsókn í Dyrhólaey. Rétt áður en þangað er komið má skoða Loftsalahelli sem er fyrrum þingstaður bænda í Mýrdal. Í Dyrhólaey er tilvalið að leggja bílnum á lægra bílaplaninu og skoða útfallið þar sem Dyrhólaós mætir sjónum. Snúið svo aftur á þjóðveg 1 og takið stefnuna á Reynisfjöru. Þangað koma flestir að skoða stuðlabergið og drangana en til þess að skoða Dyrhólaós má ganga vestur eftir fjörunni í átt að Dyrhólaey. Best er að koma eftir hádegi þegar sólin gyllir ósinn. Sólsetrin hér eru engu lík.


Í Garðakoti í Dyrhólahverfi er listavinnustofan Ey collection sem gaman er að heimsækja. Þar má finna fallega hönnun og handverk innblásið af nærumhverfinu. Við mælum með að hafa samband eða fylgjast með opnunartímum á facebook síðu þeirra.Heimildir

Alþingi. (2019). Tillaga til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Sótt 18. ágúst 2020 frá althingi.is: https://www.althingi.is/altext/pdf/150/s/0598.pdf


Jón Gíslason. (26. nóvember 1947). 96. mál, hafnargerð við Dyrhólaey. Sótt 18. ágúst 2020 frá Althingi.is: https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=67&rnr=3034


Náttúrufræðistofnun Íslands. (á.á). Sjávarlón. Sótt 18. ágúst 2020 frá ni.is: https://www.ni.is/greinar/sjavarlon?fbclid=IwAR3msls6ZDzgvu-suVelDr3PtDCxQnU3ONQA6biNXH8Pivpz87B7iAq4Xls


Sigrún Lilja Einarsdóttir. (á.á.). Saga Mýrdælinga. Sótt 18. ágúst 2020 frá vik.is: https://www.vik.is/is/index.php?pid=332


Tómas G. Gunnarsson. (4. apríl 2007). Frá kennslu að kolefnisbindingu. Sótt frá mbl.is: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1138833/


Umhverfisstofnun. (2014). Dyrhólaey verndar og stjórnunaráætlun 2014-2023. Sótt 18. ágúst 2020 frá ust.is: https://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Fridlyst-svaedi/Verndaraaetlanir-i-gildi/Dyrh%C3%B3laey%20verndar%C3%A1%C3%A6tlun_loka.pdf

231 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page