top of page
  • Writer's pictureAdmin

100 ár frá fæðingu Sigrúnar Jónsdóttur

Updated: Aug 20, 2021




Sigrún Jónsdóttir kirkjulistakona hefði orðið 100 ára í dag, 19. ágúst 2021. Sigrún fæddist í Vík og stóðu rætur hennar sterkar í þorpinu alla tíð. Líkt og heiti ævisögu hennar vísar til þá var Sigrún engin venjuleg kona, og í lífshlaupi hennar er fólgin mikil og merkileg saga. Ekki eingöngu hennar sjálfrar heldur einnig saga þjóðar sem gekk í gegnum mikla umbreytingatíma á 20. öldinni. Saga Sigrúnar er í raun samtvinnuð hinni íslensku kvennasögu og sögu íslenskar kirkjulistar.


Sigrún var brautryðjandi. Hún var fyrst íslenskra myndlistarmanna til að læra og iðka kirkjulist og lagði allt í sölurnar til að afla sér traustrar menntunar á því sviði. Hún er þekktust fyrir kirkjulist sína sem var ýmist batík verk eða ofin, stundum blönduð þrívíðum hlutum. Einnig vann hún mikið með gler. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1955 eftir nær tíu ára nám. Sýningunni var vel tekið og var Sigrún m.a. beðin að gera hátíðarhökul fyrir Skálholtsdómkirkju sem var vígð 1956 og hökla fyrir Borgarneskirkju og Bessastaðakirkju. Verk hennar eru í nær 40 kirkjum á Íslandi og fimm kirkjum erlendis og hún hélt tugi sýninga á list sinni víða um lönd. Sigrún hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir listsköpun sína.


Sigrún Jónsdóttir lést 22. nóvember 2001 og hvílir í kirkjugarðinum í Vík. Þaðan sér vítt yfir þorpið og til hafs. Að Víkurbraut 17, í Skaftfellingsskemmu, hvílir nú sá sem hún kallaði stundum gælunöfnunum Vorboðinn og jafnvel Elskhuginn, heillaskipið Skaftfellingur, smíðaður 1916-1917. Skaftfellingur sigldi reglulega til Víkur árin 1918-1938 og í augum Sigrúnar kom Skaftfellingur ævinlega með vorið, og allt gott, í þorpið. Sigrún af mikilli atorku og elju færði Skaftfelling aftur á heimaslóðir og eigum við henni mikið að þakka fyrir það þrekvirki.


Í Kötlusetri er Sigrúnarstofa. Þangað er hægt er að koma og tengjast og njóta nokkurra verka hennar. Þar er einnig hægt að kynnast Sigrúnu betur með því að glugga í merkilega ævisögu hennar: Engin venjuleg kona: litríkt líf Sigrúnar Jónsdóttir kirkjulistakonu eftir Þórunni Valdimarsdóttur eða skoða fallega bók Jakobs Ágústar Hjálmarssonar um líf og list Sigrúnar. Í Skaftfellingsskemmu er Sigrúnar, verka hennar og starfa, minnst. Þar er einnig sýningin “Gott strand eða vont”, um sögu skipstranda á fjörum Vestur-Skaftafellssýslu og er hún öllum opin út fyrstu vikuna í september endurgjaldslaust.



VELKOMIN Í KÖTLUSETUR










202 views0 comments
bottom of page