Örnefnaskráning í Mýrdalshreppi

Örnefnaskráning í Mýrdalshrepp

– Verkefnið hefur hlotið 200.000 kr styrk frá Menningarráði Suðurlands

Áður fyrr varðveittust örnefni og staðsetning þeirra sem munnlegar heimildir kynslóð fram af kynslóð. Notkun þeirra var nauðsynleg í umgengni við landið til að staðsetja fyrirbæri eða til að rata um vegleysur. Vegna breyttra búskaparhátta hefur staðsetning fjölda örnefna glatast og oft eru fáir einstaklingar eftir sem þekkja til ritháttar, staðsetningar örnefna og hvaða merkingu þau hafa. Mikið af örnefnum birtust einnig á kortum sem Landmælingar Íslands gáfu út á árunum 1960 – 2006 en þar á undan hafði örnefnasöfnun einkum verið í höndum Dana í tengslum við kortagerð þeirra. Uppfærsla og leiðréttingar kortanna gat tekið langan tíma og langt gat liðið á milli kortaútgáfa.

Landmælingar Íslands (LMÍ) hafa á undanförnum árum unnið að gerð veftóls til skráningar örnefna í samstarfi við Nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Örnefnin eru þar skráð og hnitsett ofan á loftmyndagrunn og skráningin því nákvæmari en áður.

Til að auðvelda aðgengi almennings að örnefnunum var útbúin aðgengileg vefsjá á vef Landmælinga Íslands en í henni birtast örnefni sem eru í örnefnagagnagrunninum ofan á því undirlagi sem notandinn kýs. Undirlag fyrir örnefnin eru loftmyndir frá Loftmyndum ehf., gervitunglamyndir frá gervitunglinu Spot5 og Atlaskort sem stundum eru nefnd herforingjaráðskortin. Örnefnum fjölgar eftir því sem þysjað er inn í sjána þar til að lokum hafa þau öll birst. Örnefnin eru einnig hluti af í IS 50V gagnagrunni LMÍ sem gefinn er út tvisvar á ári.

Einnig hefur verið útbúin örnefnasjá með raungögnum fyrir valda heimildarmenn svo þeir geti fylgst betur með þeim uppfærslum sem gerðar eru eftir þeirra leiðréttingum. Það er talið mjög mikilvægt svo að menn sjái strax afrakstur vinnu sinnar og að þær leiðréttingar sem hafi verið gerðar nái alla leið í útgáfu.

Í Mýrdalnum er mikill vilji til að gera átak í skráningu örnefna. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið m.a. í samstarfi við félag eldri borgara á svæðinu og Ferðafélag Mýrdælinga.

Svipað verkefni er í gangi í Borgarfjarðardölum. Þónokkuð margir klukkutímar fara í skráningu örnefna á hverri jörð. Reynslan þaðan sýnir að búast megi við að hver jörð taki á bilinu 6-15 tíma. Auðvitað veltur það á stærð og gerð jarða (t.d. flatlendisjarðir sem auðvelt er að átta sig á eru fljótlegri en þær sem hafa mikið fjallendi). Sé miðað við að jarðir í Mýrdalshreppi séu um 50 má gera ráð fyrir að vinna við skráningu taki um 500 klukkustundir ef áætlaðir eru 10 tímar á jörð.

Verkefnið er eins og áður segir þarft og gefandi. Landlag væri lítils virði ef það héti ekki neitt en hætt er við að mikið af þeirri þekkingu sem aðeins er að finna hjá elstu kynslóð þjóðarinnar glatist á næstu árum ef ekki verður farið í skipulega söfnun og skráningunum komið á það form að þau varðveitist örugglega.

Verkefnið er samstarfsverkefni tveggja eða fleiri aðila auk þess sem það dregur fram staðbundin eða svæðisbundin menningareinkenni eða menningararf.

Staðan í dag: 

Fyrir þann styrk sem fékkst frá menningarráði suðurlands var ákveðið að fara af stað með verkefni í landi Víkur. Þar eru til öflugar örnefnaskrár. Búið er að safna saman örnefnaskrám ásamt því að fá kort sem að hluti af örnefnunum hafa verið skrifuð inná. Fljótlega verður tilbúin ný yfirlitsmynd af landi Víkurjarða.