top of page

Vor í Vík og umhverfishetja Mýrdalshrepps 2025

  • Harpa Elín
  • May 20
  • 1 min read


Mýrdælingar fögnuðu sumarkomunni nú í lok apríl með bæjarhátíðinni Vor í Vík - umhverfis, menningar og heilsueflandi dögum! Á hátíðinni koma Mýrdælingar og gestir saman og gera sér glaðan dag um leið og þeir hugsa um og fegra umhverfið, skapa og njóta menningar, heilsueflandi og gleðiaukandi viðburða. Mikið var um dýrðir og var hátíðin í alla staði vel heppnuð.


Hátíðin stóð í 6 daga og héldu Mýrdælingar ekki bara upp á Sumardaginn fyrsta heldur einnig dag jarðar, stóra plokkdaginn og dag umhverfisins, en sá dagur er tileinkaður Sveini Pálssyni lækni og náttúruvísindamanni.  Sveinn var mikill merkismaður, læknir Sunnlendinga lengi vel og bjó þá einmitt að Suður-Vík í Mýrdal.




Umhverfishetja Mýrdalshrepps 2025


Síðustu ár hefur Mýrdalshreppur tilnefnt umhverfishetju sveitarfélagsins sem viðurkenningu 

og þakklætisvott til einstaklinga sem hafa staðið fyrir ómetanlegu starfi í þágu umhverfis og samfélags!


Umhverfishetja Mýrdalshrepps 2025 er Sigurgeir Már Jensson, læknir í Vík. 


Sigurgeir hefur auk ómetanlegra starfa í þágu samfélagsins á margan hátt lagt hönd á plóg við fegrun og uppgræðslu lands. Hann hefur um áratuga skeið sinnt skógrækt og umhirðu trjágróðurs í sveitarfélaginu af einstakri elju og alúð. Þá hefur Sigurgeir ásamt félögum í Lionsklúbbnum Suðra unnið að landgræðslu og gróðursett tré með nemendum Víkurskóla. Í fjörutíu ár hefur hann haft þann sið að taka með sér poka undir rusl á gönguferðum sínum og segja má að hann hafi plokkað löngu áður en sá góði siður fékk nafn og varð almennur. Einar Freyr Elínarson, sveitastjóri Mýrdalshrepps, og Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðukona Kötluseturs, veittu Sigurgeiri viðurkenninguna og góðar gjafir nytsamlegar fyrir umhverfishetjur með kærum þökkum fyrir hans góða starf!


Umhverfishetjur fyrri ára eru:

  • 2023: Fjóla Gísladóttir og Birgir Hinriksson

  • 2024: Æsa Guðrúnardóttir




Kötlusetur í Vík heldur utan um hátíðina og í ár komu fjölmargir að viðburðunum. Við viljum þakka sérstaklega Mýrdalshreppi, Æsu Guðrúnardóttur, Sigurgeiri Skafta Flosasyni, Sorpstjörnum/Trash Heroes, Ferðafélagi Mýrdalshrepps, Kötlu Jarðvangi, Smiðjunni brugghúsi, Tónskóla Mýrdalshrepps, Enduro fyrir alla, Jaðarklúbbnum Víkursporti, Kjallaranum Suður-Vík, Skógasafni, Prjónastofunni Kötlu, Hótel Vík, Súpufélaginu, Farfuglaheimilinu Norður-Vík, Víkurkirkju, og auðvitað öllum þeim fjölmörgu  lögðu hönd á plóg og tóku þátt!


Það þarf samfélag til að búa til góða bæjarhátíð!


Vor í Vík snýr aftur 21.-26. apríl 2026!

Sjáumst!  



 
 
 

Yorumlar


bottom of page