- Vala Hauksdóttir
Hjörleifshöfðahlaupið 2023
Hjörleifshöfðahlaup Kötlu jarðvangs og Kötluseturs, í samvinnu við Ungmennafélagið Kötlu, var haldið á laugardaginn síðastliðinn og er hlaupið árlegur hluti af jarðvangsviku Kötlu jarðvangs. Mjög góð þátttaka var í hlaupinu í ár, en 29 hlauparar hlupu þrjár mismunandi vegalengdir, 2,5 km, 7 km, eða 11 km. Þetta var í fyrsta skiptið sem boðið var upp á að hlaupa 2,5 km og mæltist það mjög vel fyrir!
Í 2,5 km vegalengdinni kom hinn 9 ára Andri Már Óskarsson fyrstur í mark á 12:11 og Íris Anna Orradóttir kom þar næst á eftir! Systkinin Sara Eyberg Ingólfsdóttir og Tómas Eyberg Ingólfsson fengu hetjuverðlaun hlaupsins fyrir þátttöku sína í vegalengdinni, en þau voru yngstu keppendur hlaupsins: 3 og 6 ára! Þá vann Ingólfur Atlason Waagfjörð 7 km vegalengdina en hann keppir í flokki 14 ára og yngri. Staurus Psilakis hljóp upphaflega 7 km en ákvað að halda áfram og fara í 11 km og fékk því heiðursverðlaun hlaupsins. En það var Gréta Rut Bjarnadóttir stóð uppi sem sigurvegari í 11 km og fékk Hjörleifshöfðabikarinn! Prjónastofan Katla, Smiðjan brugghús og Kötlusetur gáfu veglega vinninga til sigurvegaranna, veitingastaðurinn ICE-CAVE bauð öllum þátttakendum í ljúffenga súpu að hlaupi loknu og Mýrdalshreppur sá um að hægt væri að skella sér frítt í sund! Allt í allt var þetta yndislegur dagur við Hjörleifshöfða og við þökkum kærlega öllum þátttakendum, styrktaraðilum, sjálfboðaliðum og hlökkum mikið til næsta árs! Hjörleifshöfðahlaupið er haldið í kringum Sumardaginn fyrsta ár hvert, svo nú er um að gera að setja það í hlaupadagskrána!
Allar ljósmyndirnar úr hlaupinu í ár má finna hér, https://www.flickr.com/photos/katlageopark/albums/72177720307760828, en þátttakendur geta einnig fengið myndirnar sendar til sín með að hafa samband á johannes@katlageopark.is. Úrslit og tímar hlaupsins birtast á www.hlaup.is.