Árlegt utanvegahlaup Kötlu jarðvangs á Hjörleifshöfða var haldið 27.júní 2020 í fullkomnu hlaupaveðri: léttskýjað, hæg gola, 12°C og þurrt. Öll ár á undan hefur hlaupið verið haldið að vori en vegna Covid-19 faraldursins var hlaupið fært fram á mitt sumar. Því fylgdi sá kostur að veðrið lék við hlauparana og náttúran litrík og lifandi. Ókosturinn var hins vegar sá að hlaupaleiðin var að hluta hulin hárri lúpínu og hvönn sem hlauparar urðu að ösla og rata í gegn um. Aðspurðir sögðust flestir hafa haft gaman af þessari óvæntu áskorun en vissulega hefði verið auðveldara að hlaupa ef ekki hefði verið fyrir þennan þéttvaxna gróður.
Það besta við að færa hlaupið fram á sumar var að við uppskárum þessar flottu ljósmyndir! Ljósmyndarar eru Gina Theodoropoulou og Jóhannes Marteinn Jóhannesson.
Gina tók myndir frá skemmtilegum sjónarhornum við ráslínu og uppi á höfðanum. Smellið á örvarnar til að fletta.
Gina er með ljósmyndasíðu á facebook undir nafninu Not the perfect shot. Endilega smellið like á: https://www.facebook.com/nottheperfectshot/
Jóhannes stóð í marki og myndaði sátta og þreytta hlaupara:
Sigurvegari í 11 km. hlaupinu er Guðni Páll Pálsson sem hljóp leiðina á 50 mínútum og 30 sekúndum. Í öðru sæti er Líf Magneudóttir sem hljóp leiðina á 53 mínútum og 58 sekúndum.
Sigurvegari í 7 km.hlaupinu er Haraldur Holgersson sem hljóp leiðina á 37 mínútum og 15 sekúndum. Í öðru sæti er Magnea Þorsteinsdóttir sem hljóp leiðina á 46 mínútum og 7 sekúndum. Hún var jafnframt yngsti keppandinn í ár, fædd 2006.
Úrslitin má skoða nánar hér: https://hlaup.is/listbullets_date_adv.asp?cat_id=1462&module_id=220&element_id=32142
Hjörleifshöfðahlaupið er orðinn fastur liður í starfsemi Kötluseturs, miðstöðvar menningar, fræða og ferðamála í Vík, í samstarfi við Kötlu UNESCO jarðvang. Við þökkum fyrir góða þátttöku og stemningu og hlökkum til að sjá ykkur að ári
Comments