top of page
  • Vala Hauksdóttir

DYRHÓLAEY: Jarðvætti í Mýrdalshreppi

Fyrr í sumar fjölluðum við um hugtakið Jarðvætti og í framhaldi segjum við frá jarðvættunum í Mýrdalshreppi. Dyrhólaey er vinsæll viðkomustaður fólks og ekki síður fugla og hefur verið samofin menningu Skaftfellinga frá upphafi.

Dyrhólaey er vinsæll viðkomustaður. Mynd: Þórir Kjartansson

Til upprifjunar: Jarðvætti eru svæði sem hafa áhugaverða jarðfræði og tengingu við menningu og sögu svæðisins. Þetta orð er oftast notað til að lýsa slíkum stöðum í hnattrænum UNESCO jarðvöngum. Áhugasamir geta smellt hér til að fræðast um hugtakið.


Syðsti oddi landsins, eða hvað?

Dyrhólaey er syðsti tangi meginlands Íslands ef frá er talin sandfjaran Kötlutangi suður af Hjörleifshöfða sem myndaðist í Kötlukosinu 1918. Líklegt þykir að Dyrhólaey muni endurheimta titilinn innan fárra ára þar sem sjórinn nagar nokkra metra af Kötlutanga ár hvert.


Lýsing

Dyrhólaey. Reynisfjall fyrir miðju og Kötlutangi í baksýn. Mynd: Þórir Kjartansson.

Dyrhólaey er þekktust fyrir einkennandi steinboga eða gatklett sem skagar út í hafið og rís þverhníptur eina hundrað metra upp úr úfnum sænum. Þessi tangi er nefndur Tóin og gatið í klettnum eru hinar svonefndu dyr sem Dyrhólaey dregur nafn sitt af. Hæsti punktur Dyrhólaeyjar er rúmir 120 metrar yfir sjávarmáli og þar stendur Dyrhólaeyjarviti. Heitir það Háey. Austari og lægri hluti svæðisins er nefnd Lágey.


Jarðfræðin

Þegar Dyrhólaey myndaðist fyrir um 100.000 árum var sjávarstaðan hærri og ís yfir landinu. Lágey er í grunninn úr grágrýti en Háey er móbergsstapi sem varð til eins og Surtsey, í eldgosi undir sjó. Móberg verður til í eldgosum undir vatni eða jökli og bergið er í raun samanþjöppuð aska eins og áferðin gefur til kynna. Þegar eldgosið nær upp fyrir yfirborð vatnsins fer hraun að renna og stapi myndast. Síðan hefur bæði sjór og jöklar sorfið bergið, skilið eftir sig nokkur þverhnípt sker og nagað þetta einkennandi gat í gegn um Tóna.


Lífríkið

Lundinn lifir á smáfiski í sjónum. Mynd: Þórir Kjartansson.

Dyrhólaey er einna þekktust fyrir lundavarp og góðar aðstæður til fuglaskoðunar. Helstu varpfuglar þar eru Lundar, Æðarfuglar, Kríur, Langvíur, Álkur, Ritur og Fýlar. Ýmsar endur, vað- og spörfuglar eru einnig fastagestir ásamt nokkrum ránfuglum.

Í nærumhverfinu má stundum sjá landseli og útseli enda er þar fjölbreytt fæða fyrir þá. Flundra, sjóbirtingur, silungur og sandsíli eru meðal þess sem selir og fuglar gæða sér á í hafinu við Dyrhólaey.


Saga og menning

Saga byggðar í Dyrhólahverfi er samofin náttúrunni í Dyrhólaey. Hér var lengi útræði eftir fiski og á fyrri hluta síðustu aldar voru háleit markmið um að gera hér skipahöfn, enda var hvergi skipalending á Suðurlandi, allt frá Eyrarbakka til Papóss. Hugdjarfir menn sigu niður björgin á haustin og rotuðu fýl, enda þótti hann mikið lostæti hér um slóðir.


Viti var fyrst reistur í Dyrhólaey árið 1910 en sá sem stendur þar nú var reistur síðar, árið 1927. Hann var upphaflega teiknaður af Guðjóni Samúelssyni en hönnunin tók nokkrum breytingum áður en hann var byggður.


Margar þjóðsögur eru tengdar við Dyrhólaey. Vættur eða draugur að nafni Eiðisboli var sagður búa í helli austan í Lágey og einnig var sterkt trú fyrir því að Huldufólk héldi til á þessum slóðum.

Tóin. Séð frá Háey Mynd: Jónas Erlends

Að heimsækja Dyrhólaey

Heimsókn í Dyrhólaey getur varað allt frá stuttu útsýnisstoppi upp í tveggja eða þriggja tíma skoðunarferð. Ef ferðast er á fólksbíl er ráðlegt að leggja á bílastæðinu á Lágey og virða þar fyrir sér náttúruna. Í góðu veðri er ánægjulegt að ganga vestur eftir björgunum og jafnvel yfir á Háey þar sem vitinn stendur. Þeir sem koma á jepplingi eða jeppa geta keyrt malarveginn upp á Háey en þá er aðeins tveggja mínútna gangur að vitanum og flottum útsýnisstað yfir vesturhlið opsins.


Af virðingu við gróður, fuglavarp og af öryggisástæðum, er gestum skylt að halda sig á stígum. Athugið að til verndar fuglavarpi er Dyrhólaey lokuð á næturnar í maí og júní frá klukkan 19:00 til 09:00.


Heimildir:

Katla UNESCO jarðvangur: http://www.katlageopark.is/jardvaettin

Sigrún Lilja Einarsdóttir: https://www.vik.is/is/index.php?pid=328

Sjóminjar Íslands: http://www.sjominjar.is/vitar/


Ljósmyndir:

Þórir Kjartansson, Vík

Jónas Erlendsson, Fagradal


Kort:

Kort fengin af ja.is. Kötlusetur bætti inn skýringum.


Heimasíða Kötluseturs: www.kotlusetur.is

171 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page