Kæru lesendur

Á sumardaginn fyrsta sem jafnframt var dagur umhverfisins í ár eða þann 25. apríl flutti Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndar erindi í Kötlusetri. Erindið var kynning hans á skýrslu sem hann hefur unnið að s.l. ár.

Erindið fjallaði um fuglalíf við Dyrhólaós. Góð mæting var á erindið og mættu um 25 manns. Skýrslan er nú aðgengileg hér – Dyrholaos_skyrsla_loka.

Útdráttur úr skýrslunni
Fuglalíf á og við Dyrhólaós var kannað með 11 talningum, tveimur vorið 2010, 8
dreifðum yfir árið 2012 og einni að vetrarlagi 2013. Talið var allt í kringum ósinn frá
völdum stöðum. Í júní var þéttleiki og útbreiðsla fugla á fyrirhugaðri veglínu á
bökkum Dyrhólaóss kannaður.
Talsverður munur var á fuglalífi, eftir því hvort ósinn var úti eða uppi, hvort
útfallið væri stíflað eða ekki. Áberandi minna var af vaðfugli þegar ósinn var uppi,
með hárri vatnsstöðu, en þá bar meira á öndum. Dyrhólaós er mikilvægur
viðkomustaður fyrir gæsir, endur, vaðfugla og kríu á fartíma á vorin (apríl-maí) og
haustin (júlí-nóvember). Vorfarið stóð í styttri tíma og með hærri toppi, en haustfarið
var lengra og jafnara.
Alls fannst 51 fuglategund í talningum og upplýsingar fengust um nokkrar í
viðbót á athugunartímanum. Ellefu tegundir mófugla voru skráðar í punktatalningum
á mófuglum á eða nærri veglínunni. Þéttleikinn var mikill, reiknaður þéttleiki nærri
400 pör á km², en úrtakið í minna lagi. Hrossagaukur og stelkur voru algengustu
varpfuglarnir, lóuþræll, óðinshani og brandugla sjaldgæfustu.
Tvær tegundir ná viðmiðum Alþjóða fuglaverndarsamtakanna BirdLife
International til að svæðið komist á skrá um Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (IBA),
sanderla og jaðrakan, en aðeins í einni talningu. Meiri upplýsingar þarf til að svæðið
verði skráð sem IBA svæði. Dyrhólaós er á Náttúrminjaskrá og Dyrhólaey friðlýst.
Margar fuglategundir sem fundust á ósnum eru á válista Náttúrfræðistofunnar, eru
ábyrgðartegundir, einlendar undirtegundir og/eða tegundir á SPEC lista BirdLife og
skráðar í viðauka Bernarsáttmálans.
Niðurstöður þessara rannsókna benda til að vegarstæði með bökkum
Dyrhólaóss geti haft varanleg og skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn. Margir fuglar nota
túnin og mýrarnar kringum ósinn til fæðuöflunar og sækja svo á ósinn til hvíldar eða
flýja þangað, ef þeir verða fyrir styggð. Litlar mannaferðir eru um norðanverðan ósinn
nú og hafa fuglar þar mikinn frið til varps og annarrar iðju, samhliða því að framræst
land á þessu svæði sem ekki er nýtt, er smátt og smátt að blotna upp og færast í fyrra
horf. Þetta mundi breytast mikið við tilkomu vegar. Jafnframt er óljóst hvaða áhrif
vegur muni hafa á vatnsbúskap og leirurnar í Dyrhólaósi.

Kveðja,

Eiríkur Vilhelm Sigurðarson

Forstöðumaður Kötluseturs