Skaftfellingsbúð

Víkurbraut 17, Vík í Mýrdal (Skaftfellingsbúð)

Víkurbraut 17 er 390 m2 stálgrindarhús sem reist var árið 1958 og þjónaði áður sem pakkhúss Kaupfélags Skaftfellinga auk þess sem þar var rekið vélaverkstæði. Gaflar hússins eru úr járnbentri steinsteypu sem og gólfplata og sökklar. Kaupfélagið rak starfsemina í húsinu á meðan það var starfandi. Árið 2001 flutti listakonan Sigrún Jónsdóttir vélbátinn Skaftfelling til Víkur og var honum komið fyrir í húsinu. Var þá tekið úr gólfplötu þess. Mýrdalshreppur átti þá húsið en lagði það inn í Kötlusetur í lok árs 2010.
Húsið er gegnt Brydebúð og unnið er að lagfæringu á því samkvæmt tillögum Arinbjörns Vilhjálmssonar arkitekts, þ.e. bæði á þaki og veggjum eins og þarf. Stefnt er að því að Skaftfellingur verði sýnilegur gestum gegnum gler á árinu 2013.
Skaftfellingur er stórkostlegur sýningargripur eins og hann er, og hér er ekki gert ráð fyrir að endurbyggja hann svo neinu nemi, aðeins að hreinsa og snurfusa hér og þar. Auk Skaftfellings er stefnt að því að setja upp kalda sýningu þar sem fjallað er um baráttuna við sjóinn og útræði frá hafnlausri strönd.

Skaftfellingsbúð í nóvember 2011