Fasteignir

Í stofnskrá Kötluseturs ses kemur fram að hluti heildarstofnfjár stofnunarinnar sé greiddur í öðru en reiðufé. Um er að ræða þrjár fasteignir sem Menningarfélag um Brydebúð og Mýrdalshreppur leggja til, þ.e. Víkurbraut 17, 21a og 28. Allar eiga þær sér mikla og merkilega sögu og til að mynda þjónuðu tvær þeirra (Brydebúð og Halldórsverslun) Vestur Skaftfellingum og íbúum Eyjafjalla hina örlagaríku sláturtíð 1918 er eldstöðin Katla gaus síðast. Þriðja fasteignin, Skaftfellingsbúð, hefur að geyma vélbátinn Skaftfelling sem kom til Víkur í fyrsta skipti árið 1918 og flutti kost erlendis frá en kom um leið framleiðsluvörum Mýrdælinga í verð. Samanlögð stærð þeirra er um 1.225 m2.